Færeyskir tónar í Hörpu og í Hofi

Dagana 21. – 24. október verður Sinfóníuhljómsveit Færeyja á tónleikaferðalagi á Íslandi. Hljómsveitin heldur tvenna tónleika, þá fyrri í Hofi á Akureyri 21. október kl. 19:30 og þá seinni í Hörpu í Reykjavík 23. október kl. 19:30.

 Sinfóníuhljómsveit Færeyja hefur allt frá stofnun hennar fyrir 30 árum gegnt afar mikilvægu hlutverki í tónlistarlífi Færeyja. Markmið hljómsveitarinnar hefur verið að ná til eins breiðs áheyrendahóps og mögulegt er og að allir sem hafa áhuga eigi möguleika á því að upplifa tónleika hljómsveitarinnar. Til að uppfylla þetta markmið hefur hljómsveitin haldið ógrynni af barnatónleikum auk reglulegra sinfóníutónleika og enn fremur jóla- og fjölskyldutónleika hvert ár í byrjun desember sem eru ákaflega vel sóttir af jafnt börnum sem fullorðnum frá öllu landinu. 

 Margir kannast eflaust við Sinfóníuhljómsveit Færeyja frá árlegum nýjárstónleikum hennar sem sjónvarpað er inn á hvert heimili í Færeyjum í byrjun janúar og sem hafa undanfarin ár einnig verið sendir út á RÚV. Þetta er mikill viðburður sem sameinar færeysku þjóðina við að hlýða á klassíska tónlist.

 Skemmtilegur hluti af hátíðahöldum hljómsveitarinnar vegna 30 ára afmælisins er tónleikaferðin til Íslands. Á dagskránni er hið þekkta verk eftir Edward Elgar, Enigma varíasjónirnar sem voru samdar 1889-99. Tónskáldið eignaði persónum úr lífi sínu allar fjórtán varíasjónir verksins, m.a. eiginkonu sinni Alice og útgefandanum August Jaeger.

 Á dagskránni er einnig fyrsti píanókonsert Tchaikovskys. Verkið var samið á árunum 1874-75, endurskoðað af höfundi í fyrsta sinn sumarið 1879 og aftur í desember 1888. Þetta er eitt vinsælasta verk Tchaikovskys og einn þekktasti píanókonsert í heimi. Einleikari er rússneski píanóleikarinn Pavel Raykerus.

 Færeyska tónskáldið Sunleif Rasmussen gaf hljómsveitinni verkið Veitsla í þrítugsafmælisgjöf. Sunleif er með þekktustu tónskáldum Færeyja og fékk tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2002 fyrir verkið Oceanic Days. Veitsla er hressileg afmæliskveðja frá tónskáldinu og verður frumflutt í þessari tónleikaferð, en auk tónleikanna á Íslandi heldur hljómsveitin eina tónleika í Norðurlandahúsinu í Færeyjum, sunnudaginn 20. október.

 Bernharður Wilkinson hefur undanfarin ár stjórnað Sinfóníuhljómsveit Færeyja. Bernharður er alinn upp í Englandi en er af færeyskum ættum og hefur heimsótt Færeyjar reglulega. Bernharður hefur lengst af búið og starfað á Íslandi sem flautuleikari og hljómsveitarstjóri en er nú kominn til starfa í Færeyjum. Hann er afar mikilvægur fyrir færeyskt tónlistarlíf og fer fyrir hljómsveitinni í ferð hennar til Íslands.

Hljómsveitin hefur áður farið í tvær tónleikaferðir, til Noregs og Danmerkur, og er þetta því þriðja ferðin sem nú er farin til frændþjóðarinnar í norðri. Verið öll hjartanlega velkomin á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Færeyja:

Mánudaginn                21. október í Hofi á Akureyri

Miðvikudaginn          23. október í Hörpu í Reykjavík.

Frítt er inn á tónleikana í Reykjavik en miðaverð á tónleikana í Hofi er kr. 4.900 og kr. 2.500 fyrir 18 ára og yngri