Viljayfirlýsing landsstjórnar Fćreyja og ríkisstjórnar Íslands

Viljayfirlýsing  landsstjórnar Færeyja og ríkisstjórnar Íslands

Ríkisstjórnir beggja landa hafa sett sér það markmið að auka samvinnu þjóðanna
- með vísan til þess að í 7. gr. fríverslunarsamnings landanna, Hoyvíkursamningsins, lýsa samningsaðilar yfir að þeir muni auka og víkka út samstarf sitt á öllum þeim sviðum þar sem sameiginlegra hagsmuna er að gæta, þar á meðal sviðum orkumála;

- eru sammála um mikilvægi þess að þjóðirnar tvær vinni saman og deili reynslu á sem flestum sviðum;

– leggja áherslu á að varðveita sameiginlega menningararfleið þjóðanna tveggja og viðhalda þeim vinarhug og þeirri samkennd sem ríkir og ríkt hefur í samskiptum þeirra og bera hvort tveggja fram til komandi kynslóða;

– hafa ákveðið að auka samvinnu sín á milli með sérstakri áherslu á atvinnuþróun og nýsköpun.      

Á grundvelli þessa munu stjórnvöld beggja landa vinna að því að efla efnahagslegt samstarf og stuðla að gagnkvæmum viðskiptum til hagsbóta fyrir báðar þjóðir. Sérstaklega verður horft til þess hvernig best megi nýta reynslu og þekkingu sem vaxið hefur fram með hvorri þjóð um sig til hagsbóta fyrir hina þjóðina. Í því samhengi er því sérstaklega fagnað að hafin er samvinna milli Færeyinga og Íslendinga um hugsanlega kosti þess að eiga viðskipti með endurnýjanlega orku um sæstreng milli landanna. Áfram verður byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið um samstarf á sviði nýsköpunar með það að markmiði að þekking sem verður til í öðru landinu nýtist í hinu.

Til að fylgja eftir þeim markmiðum sem kynnt eru í þessari viljayfirlýsingu hefur verið ákveðið að halda reglulega sameiginlega ráðstefnu með fulltrúum þjóðanna beggja um atvinnu- og nýsköpunarmál. Fyrsta ráðstefna af því tagi verður haldin í Færeyjum í dag, 5. mars 2013. Framvegis verði slík ráðstefna haldin ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti, til skiptis í löndunum tveimur; næsta ráðstefna verður haldin á Íslandi.

Gert í Þórshöfn hinn 5. mars 2013
Fyrir hönd Færeyja: Johan Dahl atvinnumálaráðherra
Fyrir hönd Íslands: Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra